29.9.07

Oxford blogg þrjú

Aaaahhh mikið er skrítið að vera ekki að vinna - ég eyði dögunum algjörlega bara í það sem mig langar að eyða þeim í og þessa dagana er það að versla, hanga, versla, labba, borða nammi, borða góða matinn hennar mömmu og versla aðeins meira :Þ

Ég er núna komin með 1 skópar, 1 jakka og 5 kjóla svona að minnsta kosti. Ég var komin með augastað á öðrum jakka, alveg fullkomnum en þegar ég fór í búðina til að kaupa hann þá var hann búinn í minni stærð : / Hann kemur aftur en enginn veit hvenær svo ég verð bara að sitja um búðina þangað til ég fer heim og eftir það verða Eydís og mamma á vaktinni.

Lífið hérna er búið að vera svo ljúft og gott að ég er eiginlega bara búin að gera mig of heimakomna - vinstri umferðin gerir mig ekki lengur ringlaða
- ég er loksins búin að læra að sturta niður klósettinu
- ég held ég sé að átta mig á ruslatunnukerfinu hér
- við pabbi erum að stúdera reglurnar í rugby - þetta breska er sko alvöru, þetta bandaríska er bara fyrir sissies. Það eru innköst, hrúgur, spörk, hlaup og hvað eina
- maður fer inn vinstra megin í strætó, hægra megin er fyrir fólkið sem er að fara út :Þ
- og það er eins gott að segja bara please, thank you, cheers og mate nokkuð stöðugt.

Á morgun er fjölskylduferð í Reading, ég held að tilgangurinn sé bara að versla :Þ svo verð ég nú að fara að setjast niður fyrir alvöru og gera eitthvað í þessari BA ritgerð :/

- Saga, hér er ensk hrossafluga í jarðaberjaboxi bara fyrir þig

Íris eða Æhris eins og ég virðist heita hér !

25.9.07

Oxford blogg tvö

Vúhú ég fékk svo mörg komment frá ykkur í gær að ég verð nú bara að blogga meira :)

Lífið í Beljuvaði er enn jafn ljúft. Eftir að hafa farið út að borða á laugardagskvöldið og drukkið þónokkur hvítvínsglös (sumir þó nokkuð mikið af bjór) þá var sunnudagurinn þynnkudagur :Þ Ég var þó búin að fá nóg af kleprinu seinnipart dags og dró hana Eydísi með mér niður í bæ að versla smá :Þ Ég keypti mér sumarkjól (veðráttan hér gerir mann smá ruglaðann) og bol. Svo fann ég mér jakka sem ég held ég verði bara að kaupa mér :Þ
Um kvöldið fórum við Eydís líka út í smá hjólatúr - Það er ekki svo einfalt hérna því maður veit aldrei hvoru megin á götunni maður á að vera, bannsett vinstri umferð. Svo var hjólið sem ég var á líka með körfu og ég var greinilega ekki alveg að finna jafnvægið því ég var alltaf alveg við það að klessa á tré, bíla, hús, girðingar og hvað eina sem var í vegi mínum :Þ

Annars er margt áhugavert og skítið hér ...
  • það er bara hægt að kynda allt húsið í einu, semsagt annað hvort er hitinn bara Á eða AF, ekkert sérstaklega hentugt þegar saman eru komnar kuldaskræfur og hitapokar.
  • Eins verður sturtan uppi köld ef einhver ákveður að vaska upp :Þ
  • Hrossaflugurnar hér eru þónokkuð stærri en þær íslensku
  • Það standa allir í röð (en það vissuð þið nú)
  • Afgreiðslufólk hérna er með afbrigðum kurteist - ég var beðin afsökunar á því að hafa þurft að standa í röð - það var ein manneskja á undan mér !
  • Breskar stelpur tala með undarlegum væmnum máltóni - við Eydís erum að reyna að komast að því hvað veldur.
  • Hér er hægt að panta mat úr matvörubúðum í gegnum netið og fá hann svo bara sendan HEIM ! ohhh mig dreymir um að fá svona þjónustu á Íslandi en finnst mér fátt leiðinlegara en að fara og kaupa í matinn : /
  • Hér eru fjórar ruslatunnur á hús takk fyrir - hver og einn fyrir sérflokk af rusli
  • Allir gluggar eru læstir með lykli - Útidyrahurðin er líka læst með lykli að innan !
  • Rugby er afskaplega skrítin íþrótt !
Jæja klukkan er að verða 11:30, kallinn enn sofandi og við ætlum í bæinn kl. 12 að versla á HANN föt - ég fæ mína dýrðardaga í búðunum eftir að hann fer (og ég og VISA skvísa fáum að vera einar í friði ;))

22.9.07

Oxford blogg

Lífið í Oxford er ljúft, ég skil vel að mömmu og pabba líði vel hérna.

Við Orri flugum út seinnipartinn á fimmtudaginn og vorum komin hingað um kl. 22 um kvöldið. Í gær tóku mamma og pabbi okkur útlendingana í bæjarrölt og í dag fórum við Orri í útsýnisrútuferð um borgina - Það er semsagt verið að taka algjörann túrista á þetta :Þ

Það er samt ótrúlegt hvað það er þreytandi að vera túristi - við erum eiginlega alltaf bara algjörlega útkeyrð og ég gæti lagt mig hvenær sem er yfir daginn ! :Þ Maður er líka að reyna að stauta sig áfram á enskunni hérna og þó ég tali ensku ALLAN daginn í vinnunni og ég gerði það líka í allt sumar þá er þetta bara ekki eins .... *GEISP* Kannski er það líka allt labbið sem er að gera mann svona þreyttann en þetta er svo sannarlega enginn megrunarferð, allt nammið sem var keypt í fríhöfninni sér til þess : O

Veðrið er bara mjög fínt 15°C-20°C en búið að vera skýjað (kannski sem betur fer)

Jæja ég held að við séum að fara út að borða svo best að fara að taka sig til ...

18.9.07

Þó að það sé ansi snemmt þá er ég alveg að verða komin í jólaskap :Þ Farin að huga að jólagjöfum, flugi út til Oxford, jólasörum, jólafötum, jólaskrauti og allt sem fylgir :Þ Enda bara 97 dagar til jóla álesendur góðir !

Í dag var síðasti vinnudagurinn fyrir ferðina til Oxford svo nú þarf ég að nýta tímann vel - mamma er búin að sjá til þess að ég hafi í nógu að stússast ;) Nei ég er bara stríða þér :Þ En já þvo, pakka, þvo og svo þarf ég alltaf að nýta svona tímapressu til að koma öðrum hlutum í verk sem koma málinu ekkert við. T.d. varð ég að rífa allt út úr draslskápnum (draslið er allt bókhald ársins 2007 sem hefur ekki enn ratað í möppu : O) en tilgangurinn var að finna pínulítinn plastlímmiða.
Ég var nefnilega búin að ákveða að það væri tímabært að skipta um þennan pínulitlaplastlímmiða á Ipodnum. Þvílíkur snilldarlímmiði skal ég segja, þetta er bara glært plast sem er límt yfir skjáinn og þá rispast hann ekki :D Hann hefur greinilega gert sitt því límmiðinn sjálfur var orðin þvílíkt rispaður en skjárinn er enn alveg krispí ... merkilegt ekki satt.
Svo er ég loksins byrjuð að færa myndböndin af öllum DV-spólunum sem ég er búin að taka upp á myndbandsupptökuvélina - Ég er ekki búin að nenna að gera þetta í 4 mánuði en rétti tíminn er víst núna einhverra hluta vegna *hmm*

Morgundagurinn verður undirlagður - útréttingar og stúss og ekkert annað. Og svooooo sweet sweet OXFORD - jibbí ég er að fara til útlanda í 2 vikur !!

16.9.07

mjög lítið spennandi og enn minna áhugavert

Þessa dagana er ég að uppgötva alveg nýja manngerð - þessi sem að drepur þig með góðmennsku : / Ég hef aldrei áður umgengist svona manneskju sem að segir svo góða og fallega hluti og virkar svo góð og yndisleg og hefur gengið í gegnum margt sem síðan notar þetta til að fá sínu framgengt *arg* og þar sem maður var ekki nógu var um sig til að stöðva þessa vitleysu í byrjun þá er þetta farið að vinda óþægilega mikið upp á sig ...
Ég þakka fyrir að þetta er bara tímabundið því hún er svo sannarlega farin að taka á taugarnar.

Helgin er svo sannarlega búin að vera með rólegasta móti. Föstudagskvöldinu eyddum við Orri heima í kósíheitum. Í gær fórum við svo í hinn vikulega laugardagsmorgunverð hjá Maggý - við vorum að tala um það í gær að við erum búin að fara til hennar á laugardagsmorgnum (missnemma þó :Þ) í rúm 4 ár núna ! Restin af gærdeginum var svo vinna vinna vinna frá 13-23. Ég fór svo beint upp í rúm að sofa eftir vinnu því ég var svo mætt í vinnuna kl. 7:30 í morgun og hér verð ég til 16. Restina af deginum í dag ætla ég að eyða í kökuát hjá Maggý og svo ætla ég að gera ekki baun í bala í kvöld. Er þetta ekki spennandi og áhugavert.

-ÍÓ-

14.9.07

Lífið er gott :)

Þá er maður búinn að fara í fótsnyrtingu og er með eldrauðar táneglur. Ég átti svo erfitt með mig á meðan verið var að snyrta á mér tásurnar því mér kitlaði svo hrikalega ef að hún snerti á mér iljarnar :Þ Ég bara hló og hló og reyndi að vera ekki alltaf að kippa að mér fótunum :Þ

Ég er svo sátt við það hvernig þetta haust lítur út fyrir mig :) Vinnan er jafn frábær og alltaf og ég er búin að uppgötva frelsið í því að vera ekki í neinum kúrsum. Ég þarf ekkert að mæta, ekkert að lesa, engin próf að taka og engum verkefnum að skila - Ég þarf bara að einbeita mér að ritgerðinni minni og hingað til gengur það bara vel.
Ég veit ekki hvernig það verður þegar maður þarf bara að vinna - þvílíkur lúxus !

Það lítur allt út fyrir rólega helgi, við Orri erum á fullu að vinna okkur í haginn svo að við getum slaka að á í fríinu okkar í Oxford. Ég hlakka svo til :) Hvorugt okkar fékk neitt sumarfrí svo við ætlum að njóta þess í botn að þurfa ekki að gera neitt :Þ

12.9.07

Smá innlegg

Það var eins og ég hélt - lífið fór í sinn vanagang aftur á mánudaginn og það var mjög góð tilfinning. Núna er öll fjölskyldan farin aftur til síns heima og við erum aftur búin að dreifa okkur á 3 lönd :Þ Ég er líka komin HEIM núna með öllu. Það var nefnilega hálf undarlegt að vera hérna í miðbænum fyrst eftir að ég kom, allur þessi hasar og læti var eitthvað að fara í mig eftir þetta sveitasumar en töfrar Hlemms náðu mér aftur ; )

Síðan á mánudaginn er ég bara búin að vera að stússast og útrétta (svona þegar ég hef ekki verið í vinnunni). Núna er ég meira minna búin að koma öllu í verk og meira segja búin að selja grænu bykkjuna (Hyundainn) til partasölu. Hann er búinn að standa bilaður fyrir utan hjá okkur frá því í lok apríl : / stundum tekur svolítið langan tíma að koma sér að verki :Þ

Á morgun ætla ég að splæsa á mig fótsnyrtingu í leiðinni þegar ég fer í augnbrúnavaxið :Þ 10 tíma á dag í gönguskóm í 12 vikur - þið megið reyna að giska á hversu sætar tásurnar á mér eru eftir það ! - Hey Saga ég keypti mér þó rautt naglalakk um daginn og ég svo sver það við hefðum getað bjargað sumrinu með því :Þ Í sumar fékk kvenlega hliðin nefnilega ekki að blómstra, dögunum eyddi ég yfirleitt haugadrullug í skítugum fötum sem tók varla að setja í þvottavél því það tók bara hálfan dag að gera þau jafndrullug aftur. Það var svo sannarlega dagamunur ef að maður klíndi smá maskara á sig (sem gerðist næstum því aldrei).

Ég er búin að skipta um banner frá Kiva hérna til vinstri. Ég sá það í mogganum áðan að núna eru 33 Íslendingar skráðir inn en þeir voru víst 13 fyrir um tveimur vikur þegar þeir voru með smá umfjöllun. Ég gerðist líka svo frökk að senda smá upplýsingar um þessa síðu á hina og þessa í tölvupóstfangaskránni minni - ef þið hafið engann áhuga þá hendið þið því bara en ef þið eruð forvitin þá tékkið á þessu.

Og svo svona í lokin þá koma hérna nokkrar myndir frá Mývatni :)

Á toppi hæsta fjallsins á svæðinu okkar, Hlíðarfjall.

Maður furðaði sig oft á heimsku fólks í sumar !

Ljósmyndaraklikkun á Hveraröndinni - 5 mínútum seinna var farin að skamma karlinn í rauða jakkanum þar sem hann stóð á barminum á einum hvernum og var að taka myndir !
Vúhú svaka stolt eftir að vera búin að taka jeppann í fyrstu ófæruferðina sem ég hef keyrt :Þ
Stakhólstjörnin við SkútustaðargíganaHverfjall

Húsið sem ég bjó í í sumar :)
Upplýsingamiðstöðin góða og uppáhaldsfólkið mitt frá vinstri: Elva, Þorgeir, Saga og þarna í þetta eina skipti var Phoebe líka á svæðinu :Þ
Það er ekkert MÝvatn án MÝS
3 klst eftir af vinnu og svo ætla ég að skella mér í sund og njóta svo kvöldsins með kallinum mínum :)

8.9.07

smosmosmo

Ég lærði ýmislegt í sumar og vil endilega koma því á blað

  • Íslendingar leggja alltaf lengst frá næsta bíl - Útlendingar leggja alltaf við hliðina á næsta JAFNVEL ÞÓ AÐ ÞAÐ SÉ EKKI STÆÐI
  • Útlendingar LÆSA EKKI að sér þegar þeir ganga örna sinna - jafnvel þó að það sé á klósetti uppi á hálendi ! Ég veit ekki hversu mörg karlmannsbök og kvenmannsskræki ég sá og heyrði í sumar sem sérlegur Leirhnjúksklósettþrífari
  • Það getur safnast svo mikill leir á skóna manns að maður getur ekki lengur labbað - en virðist þó 15 cm hærri en venjulega :Þ
  • Maður getur ekki gert ráð fyrir því að fólk hagi sér eins og aldur þess segir til um
  • Vargskýla er mývetnska yfir flugnanet
  • Ferðabækur ljúga - Ég meina hver hefur ekki heyrt um neðanjarðarbakaríið við Mývatn ! Sumir segja jafnvel að það sé með glerþaki til að horfa niður um ! Ef þú bakar brauð ofan í jörðinni þá viltu ekki sjálfur fara þangað niður ...
  • Ítalir og Ísraelar fengu verðlaun sumarsins fyrir að vera erfiðustu ferðamennirnir.
  • Þú getur ekki kíkt ofan í Kröflu og séð fljótandi hraun (sumir virðast halda það)
  • Hálendið kallar - sumir ættu þó ekki að hlusta og helst bara halda sig heima hjá sér
Nú fer veturinn að fara að fara að byrja hjá mér - síðasta vika hefur verið undarlegt limbó þar sem amma dó og ég fékk loks að vita nákvæmlega hvað gerðist þegar góður vinur minn frá Venezuela var myrtur af lögreglu þar í landi. Svo er ég líka búin að vera með alla útlendingana mína á landinu. Öll fjölskyldan kom til að fara í jarðarförin hennar ömmu og það var svo gaman að fá þau til landsins. Mamma, pabbi og Eydís eru svo að fara heim í dag en María er hérna fram á miðvikudag :)

Eeeen svo byrjar veturinn hjá mér :Þ Ég verð að vinna meira og minna alla daga næstu tvær vikurnar eða þangað til við förum til Oxford. Ég er byrjuð að stúdera í ritgerðinni minni en ég þarf bara að hitta á leiðbeinendann minn og setja skýrari línur fyrir verkefnið - annars er svo sem ekkert sem stoppar mig í að byrja að lesa nema bara það að ég hef ekki komið mér í það ennþá

Jæja best að henda í tvö brauð

ÍÓ út

6.9.07

Fyrsta bloggið (hérna)

Jæja ætli ég sé þá ekki komin aftur heim á blogspot :) eftir mikið flakk.

Þessi vika er ekki alveg búin að vera svona eins og ég hafði planað hana. Planið var að byrja strax af hörku í lestri og vinnu en vegna þess að amma dó þá er einhvern veginn allt bara í pásu. Mamma, pabbi, Eydís og María eru öll á landinu og ég fór nú bara að gráta í gær þegar ég hitti þau. Skrýtið hvað maður getur verið tilfinningasamur :Þ
Annars hef ég nýtt vikuna í að koma ýmsu í verk sem ekki haði náðst að gera áður og svo er planið bara að byrja á öllu næsta mánudag.

Ætla að halda áfram að fikta í þessu blogger dóti og reyni svo að vera svolítið dugleg að skrifa hérna inn :Þ